Áhættuþættir

Aukið aðgengi að peningaspilum. Lögleiðing peningaspila og aukið aðgengi meðal almennings kann að hafa áhrif á tíðni spilafíknar. Niðurstöður rannsóknar í Kanada yfir sjö ára tímabil sýndi t.d. að algengi spilavanda hafði aukist frá 1,2% til 2,1% í Quebec fylki á þessu tímabili. Einnig sýndi samantekt á um 160 rannsóknum yfir 25 ára tímabil að algengi spilafíknar hafði aukist meðal fullorðinna í Bandaríkjunum og Kanada.

Ungur aldur og fyrirmyndir heima fyrir. Nokkur tengsl virðist vera á milli spilavanda og hvenær á lífsleiðinni var fyrst byrjað að spila peningaspil, sem bendir til þess að regluleg þátttaka í peningaspilum á unga aldri auki hættuna á spilavanda síðar meir. Tengt þessu hafa rannsóknir sýnt að hærra hlutfall þeirra sem eiga við spilavanda að stríða hafa átt foreldra sem spiluðu mikið peningaspil eða áttu við spilavanda að stríða og svo virðist sem börn fólks með spilavanda byrji fyrr að spila en aðrir.

Ályktunarvillur í tengslum við peningaspil. Ályktunarvillur um peningaspil virðast algengari á meðal þeirra sem eiga við spilavanda að stríða en þeirra sem spila vandræðalaust. Algengar ályktunarvillur eru t.d. að trúa því að maður geti haft áhrif á gang peningaspila eða hafi sérstaka hæfileika til að spá fyrir um niðurstöðu þeirra. Einnig er algengt að fólk haldi að líkur aukist á vinningi þegar maður hefur tapað mörgum sinnum í röð eða að vinningur staðfesti hæfileika viðkomandi, en að tap skýrist hins vegar aðeins af óheppni eða utanaðkomandi þáttum. Leiðrétting slíkra ályktunarvillna í meðferð spilafíkla virðist gefa góða raun og er lykilþáttur í hugrænni atferlismeðferð sem þróuð hefur verið fyrir meðferð spilafíknar hin síðari ár.

Áfengi og vímuefnanotkun. Niðurstöður fjölmargra rannsókna hafa leitt í ljós að það eru jákvæð tengsl milli þess að spila peningaspil og áfengis og vímuefnanotkunar. Að mörgu leyti koma slík tengsl ekki á óvart þar sem peningaspil eru oft spiluð á stöðum þar sem áfengi er til sölu og tækifæri til annarrar vímuefnanotkunar eru fleiri. Niðurstöður rannsókna sýna einnig að neysla áfengis dregur úr dómgreind spilara og að þeir spila lengur og eyða meiru en þeir sem ekki drekka áfengi á meðan þeir spila peningaspil. Ofneysla áfengis eða annarra vímuefna kann því að vera áhættuþáttur fyrir spilafíkn. Það er klárlega samsláttur milli spilafíknar og ofneyslu áfengis eða annarra vímuefna og er algengi spilafíknar meðal fólks í vímuefnavanda fjórum til tíu sinnum meiri en finnst meðal almennings.

Þunglyndi og kvíði. Andleg vanlíðan eins og kvíði og þunglyndi eru talin tengjast spilafíkn. Hugsanlegt er að fólk sem er kvíðið eða þunglynt spili í peningaspilum til að draga úr slíkum tilfinningum. Afleiðingin getur orðið að festa spilahegðun í sessi, í byrjun, sem aftur auki kvíða og þunglyndi þegar til lengri tíma er litið. Ekki er þó vitað hvort kvíði eða þunglyndi sé orsök eða afleiðing spilafíknar og líklegt er að samhengið sé flóknara.

Hvatvísi og athyglisbrestur með ofvirkni. Hvatvísi kann að eiga virkan þátt í spilafíkn. Hvatvísi felur í sér að fólk á í erfiðleikum með að standast freistingar og á erfitt með að sjá fyrir hugsanlegar afleiðingar af hegðun sinni. Svo virðist sem þeir sem eiga í vanda vegna þátttöku sinnar í peningaspilum séu að öllu jöfnu hvatvísari og áhættusæknari en þeir sem spila án vandkvæða. Þetta virðist einnig eiga við um unglinga í spilavanda, en niðurstöður nýlegrar kanadískrar rannsóknar bentu til þess að unglingar sem áttu bæði í erfiðleikum vegna peningaspila og vímuefna voru hvatvísari en þeir sem áttu einungis í erfiðleikum með annan hvorn vandann.

Hvatvísi er einnig eitt aðaleinkenna athyglisbrests með ofvirkni (AMO), en önnur einkenni AMO eru eftirtektarleysi, ofvirkni og einbeitingarerfiðleikar. Rannsóknir á spilafíklum í meðferð benda til þess að samband sé milli spilafíknar og athyglisbrests með ofvirkni. Spurt var um þessa þætti í íslenskri rannsókn á 13-15 ára unglingum í Reykjavík og sýndu niðurstöður að unglingar í vanda vegna peningaspila höfðu fleiri einkenni AMO en þeir sem spiluðu vandræðalaust.