Rannsóknir

Niðurstöður erlendra rannsókna sýna að víðast hvar hefur framboð peningaspila og aðgengi að þeim aukist til muna síðastliðinn aldarfjórðung. Flestir sem spila peningaspil gera það án vandkvæða en lítill hluti á við verulegan vanda að stríða vegna þátttöku sinnar. Niðurstöður nýlegra rannsókna í Bandaríkjunum og Kanada sýna að um 1-2% fullorðinna eiga við spilafíkn að stríða og um 2,5% til viðbótar eru í nokkrum vanda vegna spilamennsku sinnar. Þær tiltölulega fáu rannsóknir sem hafa verið gerðar á spilafíkn fullorðinna Evrópumanna benda til algengis sem er áþekkt eða ívið minna en í Norður-Ameríku.

Síðastliðinn áratug hefur athygli fræðimanna einnig beinst að þátttöku barna og unglinga í peningaspilum. Niðurstöður fjölda rannsókna sýna, því miður, að þátttaka unglinga í peningaspilum hefur aukist með aukinni þátttöku fullorðinna og það sem verra er: Spilafíkn er algengari meðal unglinga en fullorðinna. Í Norður-Ameríku eiga um 4,4% til 7,4% unglinga við alvarlegan spilavanda að stríða og svipuðu máli gegnir um breska unglinga. Niðurstöður rannsókna frá Spáni og Noregi leiða í ljós heldur minni vanda eða á bilinu 1,6% til 2,2%.

Undanfarin sjö ár hefur Daníel Þór Ólason Dósent í sálfræði við HÍ ásamt samstarfsfólki, sínu unnið að umfangsmiklum rannsóknum á algengi spilafíknar meðal unglinga og fullorðinna á Íslandi. Nú þegar liggja fyrir niðurstöður þriggja rannsókna á íslenskum unglingum og tveggja faraldsfræðilegra rannsókna á fullorðnum. 

Almennt benda niðurstöður rannsókna á 13 til 18 ára íslenskum unglingum til þess að algengi spilavanda sé á bilinu 2% til 3% og er spilavandi mun algengari meðal drengja en stúlkna. Ef niðurstöður er bornar saman við niðurstöður erlendra rannsókna á unglingum er ljóst að algengi spilavanda er ýmist svipaður eða nokkuð minni hér á landi en niðurstöður rannsókna frá Evrópu eða Norður-Ameríku sýna. Niðurstöður rannsókna á fullorðnum sem gerðar voru árin 2005 og 2007 sýna að á bilinu 0,3% til 0,5% fullorðinna Íslendinga stríða líklega við spilafíkn og um 1,6% fullorðinna á í verulegum vanda vegna þátttöku sinnar í peningaspilum. 

Frekari umfjöllun um þessar rannsóknir má finna undir viðeigandi krækjum fyrir unglinga og fullorðinna í hliðarvalsmynd á þessari heimasíðu.