Fullorðnir

Hér má sjá samantekt á niðurstöðum tveggja faraldsfræðilegra rannsókna á þátttöku í peningaspilum og algengispilafíknar meðal fullorðinna Íslendinga. 1.

Fullorðnir

Hér má sjá samantekt á niðurstöðum tveggja faraldsfræðilegra rannsókna á þátttöku í peningaspilum og algengispilafíknar meðal fullorðinna Íslendinga.

1. Spilahegðun og algengi spilavanda meðal fullorðinna Íslendinga árið 2011. Rannsóknin var fjármögnuð og unnin af frumkvæði Happdrættisnefndar.  

Útdráttur

Könnuð var spilahegðun og algengi spilafíknar meðal fullorðinna Íslendinga árið 2011. Könnunin var gerð í síma og byggðist á tilviljunarúrtaki 3.227 einstaklinga, á aldrinum 18–70 ára, úr þjóðskrá. Svör fengust frá 1.887 þátttakendum, 888 körlum og
999 konum. Nettósvarhlutfall var 61,8%. Niðurstöður sýna að um 76% fullorðinna Íslendinga spiluðu peningaspil a.m.k. einu
sinni á síðustu 12 mánuðum fyrir könnun. Vinsælustu peningaspilin voru Lottó, flokkahappdrætti, skafmiðar, póker og spilakassar. Karlar spila frekar en konur peningaspil þar sem þekking á reglum og spilaumhverfi skiptir máli (t.d. íþrótta­
getraunir og póker) en flokkahappdrætti eru vinsælli meðal kvenna. Þá eru karlar líklegri til að spila peningaspil á erlendum vefsíðum en enginn munur er á spila­mennsku kynjanna á innlendum vefsíðum. Þegar niðurstöður um spilahegðun árið 2011 eru bornar saman við niðurstöður rannsókna frá árunum 2005 og 2007 kemur í ljós að þátttaka í peningaspilum var
mest árið 2011. Aukna spilamennsku má helst rekja til meiri þátttöku í Lottói, póker, bingói og fleiri spiluðu á erlendum vefsíðum árið 2011 en 2007. Algengi hugsanlegrar spilafíknar reyndist 0,8% (öryggismörk: 0,5%–1,4%) og algengi
verulegs vanda vegna þátttöku í peningaspilum 1,7% (öryggismörk: 1,2%–2,4%). Um 2,5% þjóðarinnar töldust því eiga við spilavanda að stríða og var hann algengari meðal karla (4,3%) en kvenna (0,7%). Gera má ráð fyrir að 4–7 þúsund Íslendingar á aldrinum 18–70 ára eigi í verulegum vanda. Samanburður á niðurstöðum fyrir árin 2005, 2007 og 2011 sýnir að fleiri áttu við spilavanda að etja árið 2011 en árin 2005 og 2007.

Að lokum benda niðurstöður viðhorfsmælingar til þess að Íslendingar séu almennt fremur neikvæðir í garð peningaspila. Viðhorf voru þó breytileg eftir þjóðfélags­hópum og þátttöku í peningaspilum. Þessi niðurstaða er umhugsunarverð, sérstak­lega í ljósi þess að um 75% þjóðarinnar taka þátt í peningaspilum. Hins vegar var meirihluti svarenda ósammála þeirri fullyrðingu að banna ætti peningaspil hér á landi.

 

2. Algengi spilafíknar meðal fullorðinna á Íslandi. Greinin birtist í bókinni Rannsóknir í félagsvísindum V (bls. 403-412) og höfundar eru Daníel Þór Ólason, Sigríður Karen Bárudóttir og Sigurður J. Grétarsson. 

Útdráttur

Könnuð var spilahegðun og algengi spilafíknar meðal fullorðinna Íslendinga árið 2005. Könnunin var gerð í síma og byggist á tilviljunarúrtaki 5000 Íslendinga á aldrinum 18-70 ára, valdir úr þjóðskrá. Svör fengust frá um 3370 þátttakendum, 1648 körlum og 1715 konum. Endanlegt svarhlutfall var 70%. Niðurstöður sýna að um 68% fullorðinna Íslendinga spiluðu peningaspil að minnsta kosti einu sinni á síðustu 12 mánuðum fyrir könnun. Vinsælustu peningaspilin eru Lottó, flokkahappdrætti, skafmiðar og spilakassar. Karlar spila flestar gerðir peningaspila oftar en konur, nema flokkahappdrætti og bingó sem eru vinsælli meðal kvenna. Athyglisvert er að þátttaka í spilakössum er mun minni meðal fullorðinna en það sem gerist meðal unglinga samkvæmt nýlegum rannsóknum á spilaþátttöku íslenskra unglinga á aldrinum 13–18 ára. Samkvæmt niðurstöðum þessarar rannsóknar hafa um 12% fullorðinna spilað a.m.k. einu sinni í spilakassa á síðustu 12 mánuðum en samsvarandi tölur fyrir unglinga eru á bilinu 32% (13–15 ára) til 47% (16–18 ára). Algengi spilafíknar var metið með tveimur erlendum mælitækjum og voru niðurstöður beggja mælitækja samhljóða. Um 0,5% (+/- 0,2) fullorðinna Íslendinga eru líklegir spilafíklar og um 1.1% til viðbótar eiga í verulegum vanda vegna þátttöku sinnar í peningaspilum. Spilafíkn var algengari meðal karla (0,8%) en kvenna (0,2%). Einnig komu í ljós neikvæð tengsl milli spilafíknar og menntunar og aldurs. Spilafíkn var algengari meðal þeirra sem eru yngri en 25 ára en annarra aldurshópa og meðal þeirra sem hafa einungis lokið grunnskólaprófi en meðal þeirra sem hafa aflað sér meiri menntunar. Í megindráttum er algengi spilafíknar hér á landi svipað og sést í niðurstöðum rannsókna annarstaðar í Evrópu, en heldur minna en í Norður-Ameríku. Gera má ráð fyrir að á bilinu 600 til 1330 Íslendingar á aldrinum 18 til 70 ára stríði við spilafíkn og á bilinu 1500 til 2700 til viðbótar eigi í verulegum vanda vegna þátttöku sinnar í peningaspilum.

 

3. Spilahegðun og algengi spilavanda meðal fullorðinna Íslendinga árið 2007. Skýrsla rituð af Daníel Þór Ólasyni fyrir Dóms og Kirkjumálaráðuneytið. Skýrsluna má sjá hér

Útdráttur

Könnuð var spilahegðun og algengi spilafíknar meðal fullorðinna Íslendinga árið 2007. Könnunin var gerð í síma og byggðist á tilviljunarúrtaki 5000 Íslendinga á aldrinum 18 til 70 ára úr þjóðskrá. Svör fengust frá 3009 þátttakendum, 1448 körlum og 1561 konu. Svarhlutfall var 63,4%. Niðurstöður sýna að um 67% fullorðinna Íslendinga spiluðu peningaspil a.m.k. einu sinni á síðustu 12 mánuðum fyrir könnun. Vinsælustu peningaspilin voru Lottó, flokkahappdrætti, skafmiðar og spilakassar. Karlar spila flestar gerðir peningaspila oftar en konur, nema flokkahappdrætti, sem var vinsælla meðal kvenna. Þegar niðurstöður um spilahegðun árið 2007 voru bornar saman við niðurstöður rannsóknar frá 2005 kom í ljós að tiltölulega lítil breyting hefur orðið á spilahegðun Íslendinga á þessum tveimur árum. Helsti munurinn var sá að færri höfðu spilað í Lottó a.m.k. einu sinni undanfarna 12 mánuði fyrir könnun árið 2007 en gerðu árið 2005. Hins vegar voru fleiri sem spiluðu reglubundið (einu sinni í viku eða oftar) árið 2007 en 2005. Einnig jókst þátttaka milli ára í peningaspilum á erlendum vefsíðum og í því að leggja fé undir í spilum (t.d. póker), en sú aukning var fyrst og fremst meðal karlmanna.  Algengi hugsanlegrar spilafíknar reyndist 0,3% (öryggismörk: 0,2-0,6%) og er algengi spilafíknar hér á landi svipað og sést í niðurstöðum rannsókna annars staðar á Norðurlöndum og í öðrum Evrópulöndum, en heldur minna en í Norður-Ameríku eða Ástralíu. Einnig var kannað hversu margir Íslendingar eiga í verulegum vandkvæðum vegna þátttöku sinnar í peningaspilum (spilavandi), þó að þeir uppfylli ekki greiningarviðmið um spilafíkn. Um 1,6% þjóðarinnar töldust eiga við spilavanda að stríða og var spilavandi algengari meðal karla (2,4%) en kvenna (0,6%). Gera má ráð fyrir að á bilinu 2.500 til 4.400 Íslendingar á aldrinum 18 til 70 ára eigi í verulegum vanda vegna þátttöku sinnar í peningaspilum. Samanburður á niðurstöðum fyrir árin 2005 og 2007 sýndi að engin breyting hefur átt sér stað á algengi spilafíknar eða spilavanda á þessu tímabili.

 

 

Svæði

Ábyrgspilun.is    |    Hjálparsími  1717   Íslandsspil Happadrætti Háskóla Íslands