Heppni, hæfni eða þekking?

Hvernig skilgreinir þú vinningslíkur þínar þegar þú spilar peningaspil? Byggjast þær á tilviljun, hæfni eða þekkingu? Veist þú hverjum líkurnar eru í hag, þér eða „húsinu“?

Tilviljun. Eru sumir heppnari en aðrir? Þegar kemur að spilum þar sem tilviljun hefur áhrif á vinningslíkur standa allir jafnfætis. Það er staðreynd að fáir vinna og flestir tapa í peningaspilum þar sem niðurstaðan byggir einvörðungu á tilviljun og því getur hvorki heppni né óheppni fylgt spilara. Hvers vegna? Vegna þess að í leikjum sem byggja á tilviljun er niðurstaða hvers leikjar eða atburðar algjörlega óháð fyrri og síðari atburðum. Allir atburðir eru algjörlega einstakir og tilviljunarkenndir og því standa allir spilarar jafnfætis. Dæmi um leiki þar sem niðurstaðan byggir algjörlega á tilviljun eru bingó, happdrætti, lottó, skafmiðar og spilakassar.

Hæfni og þekking. Getur hæfni eða þekking hafi áhrif á vinningslíkur í peningaspilum? Þegar veðjað er á t.d. niðurstöður veðreiða eða annarra íþróttakappleikja telja margir að þekking og hæfni spilara hafi áhrif á niðurstöðuna og auki möguleika þeirra á að vinna sér inn fé. Niðurstöður rannsókna benda hins vegar til þess að þetta sé ekki rétt.

Gerð var áhugaverð rannsókn í Kanada fyrir nokkrum árum þar sem hlutur þekkingar á niðurstöðu í peningaspili var rannsakaður. Kannað var hvort reyndir spilarar sem veðjuðu reglulega á útkomu íshokkíleikja í Kanada og Bandaríkjunum stæðu sig betur en tilviljunarbundið val á niðurstöðu sömu kappleikja. Í ljós kom að reyndir spilarar höfðu að meðaltali marktækt fleiri leiki rétta en tilviljunarbundið val, en þeir unnu sér ekki inn meira fé en það sem fékkst með tilviljunarbundnu vali. Í reynd töpuðu flestir peningum. Ástæðan var fyrst og fremst sú að til að vinna peninga þurftu spilarar ekki einungis að geta rétt til um niðurstöðu eins leiks heldur þurftu þeir að hafa tiltekin fjölda leikja rétta í hverri umferð (þrjá til sex leiki). Niðurstaða rannsakanda var því m.a. sú að reyndir spilarar hafi tilhneigingu til að draga rangar ályktanir um þátt eigin þekkingar og hæfni í niðurstöðum leikja og vanmeta þátt tilviljunar. Sú vitneskja sem maður kann að hafa um styrkleika liða, eða hvort lið er að spila heimaleik eða útileik og hvaða leikmenn eru í formi á hverjum tíma, getur komið manni til góða ef aðeins er spáð fyrir um niðurstöður stakra leikja en kemur að litlu gagni þegar geta þarf rétt til um niðurstöður margra leikja samtímis!

Áhætta er samnefnari fyrir þátttöku í peningaspilum

Áhætta er alltaf til staðar því útkoma leikjar er alltaf háð einhverri óvissu og því er alltaf tekin áhætta þegar maður leggur fé undir. Hvers vegna er það? Af því að spilarinn veit ekki og getur með engu móti vitað hver niðurstaðan verður þegar hún ræðst af tilviljun eingöngu!