Einkenni spilavanda og spilafíknar

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þeir sem glíma við spilavanda þurfa ekki allir að takast á við sömu vandamálin. Þegar spilun hefur orðið forgang yfir flesta „eðlilega“ þætti í lífi einstaklings, svo sem fjölskyldu, vini og vandamenn, vinnu og áhugamál og viðkomandi á í fjárhagsvanda af þeim sökum, er ljóst að við mikla erfiðleika er að etja. Á þeim þarf að taka með markvissum hætti.

Hér má sjá algeng einkenni sem koma fram hjá þeim sem ánetjast peningaspilum. Ef þú þekkir þessi einkenni hjá sjálfum þér þarft þú að hugsa þinn gang.

  • Ég er iðulega upptekin af spilun og er stöðugt að hugsa um „næsta leik“.
  • Ég þarf sífellt að spila fyrir meiri peninga til að upplifa sömu spennu og áður.
  • Ég hef oft reynt að hætta eða draga úr spilun minni, en án árangurs.
  • Ég er oft eirðarlaus eða pirraður þegar ég reyni að draga úr eða hætta peningaspilum.
  • Ef mér líður illa eða vil ekki takast á við vandamál mín, spila ég gjarnan peningaspil.
  • Ef ég tapa í peningaspilum, reyni ég gjarnan að vinna tilbaka tapað fé.
  • Ef ég er spurður um þátttöku mína í peningaspilum segist ég gjarnan spila minna en ég geri.
  • Ég hef stolið peningum til að fjármagna spilamennsku mína.
  • Þeir sem standa mér næst eru oft ósáttir við þátttöku mína í peningaspilum (t.d. fjölskylda, vinir, eða samstarfsfélagar).
  • Ég lendi oft í fjárhagslegum erfiðleikum vegna spilamennsku minnar og hef þurft að stóla á aðra til þess að bjarga mér úr þeim vanda.